Avókado pasta
Mér finnst oft svo gott að geta gert einhvern einfaldan rétt á skömmum tíma. Þessi réttur var svona eitthvað sem mér datt í hug að gera af því að ég átti mjög þroskað avókadó sem þurfti að nota strax og hugsaði með mér af hverju ekki að gera sósu úr avókadóinu svona eins og maður gerir pestó og hefur með pasta. Og voila þetta heppnaðist bara svona líka vel og allir glaðir á heimilinu með þennan rétt.
400 gr tagliatelle
1 þroskaður avókadó
2-3 hvítlauksrif
safi úr 1/2 lime
salt og pipar eftir smekk
lúka af steinselju
2 msk ólífuolía
1 kjúklingateningur
1 kjúklingabringa skorin í bita(ef vill)
Setjið vatn í pott með 1 kjúklingatening og hitið vatnið að suðu. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
Takið avókadóið og skerið í tvennt, takið steininn úr og náið kjötinu úr með skeið. Setjið avókadóið í blandara ásamt hvítlauknum, limesafanum, steinseljunni og ólífuolíunni og maukið saman. Saltið og piprið eftir smekk og bætið við hvítlauk ef ykkur finnst þörf.
Svo er bara að sigta vatnið frá pastanum og hella avókadó sósunni yfir og dreifa parmesan yfir. Ég tók kjúkling sem ég átti afgangs og setti út í pastað með sósunni og það var alveg geggjað.