
Focaccia brauð
Ég held að þetta sé svona fyrsta brauðið sem ég lagði í að baka. Mér finnst svo lítið mál að skella í þetta brauð þegar mig langar að hafa pasta nú eða þegar ég er með saumaklúbb og langar í gott brauð með ostunum og parmaskinkunni. Það er svo auðvelt að hræra í þetta, skella í eldfast mót og gleyma því svo í nokkrar klukkustundir. Þá hefast það svo vel og verður alveg geggjað!!!
4 dl volgt vatn
1 ½ tsk salt
1 bréf þurrger
550 gr hveiti
½ dl ólífuolía
3 tsk rósmarín (helst ferskt)
salt eftir smekk
Hrærið saman vatn, salt og ger. Bætið síðan hveitinu út í og hnoðið vel saman. Að lokum bætið þið ólífuolíunni út í en þá verður deigið frekar blautt sem er í góðu lagi.
Takið eldfast mót sem er ca 25x30cm og setjið bökunarpappír í botninn. Setjið deigið í mótið og dreifið úr því þannig að það fylli alveg botninn út í kanta. Dreifið rósmarín og grófu salti yfir. Núna þarf deigið að hefast en það er hægt að gera á tvo vegu. Annars vegar er hægt að setja það í ísskápinn og láta það hefast yfir nótt eða í ca 6-7 tíma. En persónulega finnst mér best að láta það hefast við stofuhita en þá þarf það að hefast í rúmlega 2 klukkutíma.
Bakið í forhituðum ofninum við 220°C í 25 mínútur. Þegar brauðið er tekið út er ólífuolíu dreift yfir það og salti eftir smekk.