Heimagerð bernaisesósa
Hver elskar ekki góða bernaisesósu – held að hún passi bara með öllum mat, svona næstum því. Þegar þið gerið bernaisesósu þá er sitt lítið af hverju sem þarf að huga að enn engu að síður er afar einfalt að gera hana.
5 eggjarauður
250 gr smjör
2 tsk kjötkraftur eða 2 teningar
1 msk bernaise essens
2 tsk estragon
Setjið eggjarauður í skál ásamt bernaise essens og þeytið saman. Bræðið smjöri í potti og bætið út í það kraftinum og estragoninu. Síðan er bara að hella smjörinu varlega út í eggin og hræra hægt og rólega á meðan. Það sem skiptir miklu máli er að hafa smjörið ekki sjóðandi heitt þegar þið hellið því saman við eggin og eins er gott að passa upp á að eggin komi ekki beint úr ísskápnum heldur séu við stofuhita.
En munið það að sósan getur fallið og það er ekkert til að gera veður út af, það getur gerst hjá öllum og gerir það alveg örugglega einhvern tímann á lífsleiðinni nokkrum sinnum. En þetta er ekkert nema æfing og best er bara að henda sér í málið og það er nú einu sinni þannig að sósan tekst yfirleitt og er náttúrulega bara það besta í heimi.