pesto-kjuklingur-med-mozzarella-og-tomotum

Pestó kjúklingur með mozzarella og tómötum

23 August , 2013

Pestó kjúklingur er uppskrift sem er í algjöru uppáhaldi hjá minni fjölskyldu. Það klikkar aldrei að gera þennan rétt því hann slær sko alltaf í gegn og svo er svo afar einfalt að græja þetta á stuttum tíma. Mér finnst einhvern veginn að allt sem maður getur sett í ofninn og fengið gourmet máltíð eftir hálftíma, vera það best sem maður getur gert í eldamennskunni. Prófið endilega þessa geggjuðu uppskrift.

4 kjúklingabringur
1 skammtur heimatilbúið pestó eða 1 krukka af tilbúnu pestó
1/2 dós rjómaostur
1 pakki kirsuberjatómatar
1 poki ferskur mozzarellaostur
4 msk ólífuolía

Takið kjúklingabringurnar, skerið þær í tvennt og raðið í eldfast mót.  Dreifið ólífuolíunni yfir og kryddið með salti og pipar eftir smekk. Blandið saman pestóinu og rjómaostinum og smyrjið yfir bringurnar, þykkt lag á hverja bringu. Setjið í ofninn og eldið við 190°C í 20 mínútur, takið þær þá út og dreifið tómötunum á milli og setjið mozzarellaostinn yfir. Setjið aftur í ofninn og eldið í aðrar 20 mínútur.
Mér finnst mjög gott að borða þetta með sæt kartöflumúsinni minni nú eða að taka sæta kartöflu, skera hana í bita og setja í eldfast mót og krydda með því kryddi sem mér finnst best og stundum dreifi ég fetaosti á milli til að fá smá aukabragð. Og auðvitað verðum við að vera með gott salat með þessu.