Spagetti-bolonese-960x640-V1

Spaghetti Bolognese

30 January , 2017

Þetta er auðvitað algjör klassík og við höfum öll okkar háttinn á að gera góða Bolognese sósu. Þetta er uppskrift eins og ég geri alltaf og hef alltaf gert síðan ég lærði að gera hana í eldhúsinu heima þegar ég var unglingur. Mamma og pabbi sáu til þess að ég kynni þetta nú örugglega enda á ég afar góðar minningar frá því að hafa fengið spaghetti bolognese á laugardagskvöldum.

500 gr nautahakk
1 laukur
2 hvítlauksrif
3 tsk garam masala
1 tsk tandoori masala
2 tsk chilliduft
1 msk kjötkraftur
1 msk tómatpurré
1 dós niðursoðnir tómatar
2 msk chillitómatsósa eða önnur tómatsósa
2 msk Dijon sinnep
salt og pipar
Salt og pipar eftir smekk
1 msk þurrkað óreganó
Hvítlaukskrydd
1/2 dós af hvítlauksrjómaosti /piparrjómaostur eða bara báðir
Lúka fersk basilika
500 gr spaghetti

Saxið laukinn og hvítlaukinn og steikið í olíu á pönnu, kryddið með garam masala, tandoori masala og smá hvítlaukskryddi.  Þegar laukurinn er orðinn mjúkur þá bætið þið nautahakkinu út í  og steikið vel og kryddið með salti og pipar.  Bætið síðan út í tómatpúrreé,chillitómatsósunni og niðursoðnu tómötunum og  kryddið með chillidufti, kjötkrafti og þurrkaða óreganóinu svo er bara að krydda vel eftir smekk. Síðan blanda ég yfirleitt svona eins og hálfri dós af hvítlauksrjómaosti og piparrjómaosti út í.  Það er voðalega gott að setja basilikuna út í, í lokin. Svo er bara að láta þetta malla svolítið – mér finnst bolognese alltaf best ef ég geri það deginum áður.
Svo er bara að sjóða spaghettíið og hita gott brauð og þá er komin þessi líka eðal ítalska máltíð en auðvitað má ekki gleyma parmesanostinum.