Heimagerður rjómaís með bananasúkkulaðisósu
Hér er uppskriftin af ísnum sem ég gerði í sjónvarpinu á Miklagarði um daginn. Þetta er svakalega góður ís sem er alveg upplagt að skella í svona fyrir páskana til að eiga í eftirrétt, nú eða bara til að næla sér í á góðu kvöldi heimavið. Persónulega finnst mér langbesti ísinn vera sá sem er heimagerður, en dæmi hver fyrir sig.
500 ml rjómi
4 egg
4 msk sykur/ljós púðursykur
2 tsk vanillusykur
1 msk kaffilíkjör eða amaretto
150 gr rjómasúkkulaði frá Nóa Síríus
Hellið rjómanum í skál og þeytið vel. Setjið eggin og sykurinn í aðra skál og þeytið þangað til það verður létt og ljóst. Blandið þá saman við vanillusykrinum og líkjörinu. Síðan takið þið rjómann og blandið honum saman við eggjablönduna smá saman, passið upp á að blanda þessu varlega saman með sleif. Blandið síðan út í söxuðu súkkulaðinu. Hellið í form eða skál og frystið. Það tekur ísinn lágmark sólarhring að frosna.
Það er síðan auðvitað hægt að breyta þessu aðeins með því að setja hvaða tegund sem er af súkkulaði í ísinn. En síðan er ómissandi að hafa fersk ber með.
Bananasúkkulaðisósa
2 dl rjómi
1 stór plata af Pipp með bananafyllingu
Setjið hvort tveggja í pott og blandið saman við vægan hita þangað til súkkulaðið er vel bráðnað.