Finnskir kanilsnúðar
Þetta eru snúðar sem hún Sigga vinkona mín er búin að vera að baka í mörg ár og eru langbestu kanilsnúðar sem ég hef smakkað. Enda ef ég frétti að hún hafi verið að baka þá, þá stekk ég af stað yfir til hennar í heimsókn til að fá einn góðan snúð og góðan kaffi með. Það jafnast ekkert á við það. Þessi uppskrift er finnsk og það sem gerir gæfumuninn hér eru kardimommurnar svo að ef þið getið mögulega komist yfir malaðar kardimommur þá mæli ég með því. Snúðarnir á myndinni eru aðeins öðruvísi rúllaðir upp en vanalega en Sigga kenndi mér það að stundum er gaman að gera ekki bara þetta hefðbundna útlit á kanilsnúðum, ef þið viljið fá snúðana ykkar svona þá er best að pensla deigið og leggið það svo yfir til helminga, skera í lengjur og binda deigið saman eins og þið séuð að binda hnút og setja endana undir hvern og einn snúð. Hvet ykkur til þess að prófa það, bara soldið skemmtileg tilbreyting.
5 dl mjólk
2 dl sykur
2 matskeiðar grófmalaðar kardimommur(má sleppa ef þið eigið þær ekki)
1 1/2 tsk salt
1 poki þurrger
13-15 dl hveiti eða c.a 800gr
200g brætt smjör
Hitið mjólkina að suðu, takið af hitanum og bætið gerinu út í ásamt sykrinum. Bætið síðan við þetta kardimommunum,salti og smjöri og hrærið í með sleif. Setjið hveitið í skál og bætið vökvanum saman við það, hnoðið vel og látið síðan hefast vel í skálinni í rúmlega klukkustund, leggið rakan klút yfir skálina á meðan.
Takið deigið úr skálinni þegar það er búið að hefast og hnoðið aðeins. Skiptið deiginu í tvo hluta og fletjið út í ferning, smyrjið með mjúku smjöri og dreifið fullt af kanilsykri yfir. Svo er bara að rúlla deiginu upp og skera það í sneiðar og smyrja hvern og einn snúð með smjöri og strá smá kanilsykri yfir.
Snúðarnir eru bakaðir við 200°-220°C í 12-15 mínútur eða þangað til þeir eru orðnir gullinbrúnir.