ricotta-960x640-V1

Heimagerður ítalskur ricotta ostur

15 October , 2020

Það er nú bara þannig að það hefur ekki verið hægt að fá ítalskan ricotta ost í búðunum hér í langann tíma. Svo að ég er búin að gera minn eiginn ost í þó nokkurn tíma sem er ekkert mál að gera. Þessi uppskrift er algjörlega skotheld og tekur ekki mikinn tíma.  Maður getur skellt í þetta og gert síðan ýmislegt annað á meðan því osturinn þarf að taka sig og standa á borðinu í svolítinn tíma.

Það sem þarf í þetta eru
3 lítrar og 785 ml af nýmjólk
180 ml rjómi
80 ml safi úr ferskri sítrónu
grisjuklútar

Setjið mjólkina og rjómann í pott og hitið á miðlungshita upp í 88°C, notið hitamælir svo að þetta sé algjörlega rétt.
Takið af hitanum þegar réttu hitastigi er náð og bætið sítrónusafanum út i. Hrærið nokkrum sinnum í blöndunni með reglulegu millibili.  Þegar þið eruð búin að því þá takið þið viskustykki og setjið yfir pottinn og látið þetta standa á borðinu í 2 klst.

Nú þurfi þið skál sem þið setjið stórt sigti ofan á og ofan í sigtið fer grisjuklúturinn sem þið eru búin að bleyta aðeins. Hellið blöndunni úr pottinum yfir í sigtið og þá rennur mysan af ostinum og eftir verður ostablandan. Það getur tekið allt að 30 mínútum að sía vökvann frá ostinum svo að þið þurfið að hafa svolítið djúpa skál.

Þegar mest allur vökvinn er runninn frá þá er gott að setja minni skál undir og skella þessu inn í ísskáp til að fá hann þéttari og stífari. Ég hef hann svoleiðis yfir nótt en síðan tek ég hann og set í lokaðar krukkur. Osturinn geymist svona ferskur í ísskápnum í 1 viku.