gnoggi_1

ítalskt kartöflu Gnocchi

25 April , 2014

Gnocchi er eitthvað sem maður fær á hverju horni á Ítalíu og er jafn vinsælt og venjulegt pasta þar í landi. Mér finnst þetta alveg óendanlega gott en mætti vera aðeins duglegri við að gera þetta því að það er svo lítið mál og maður getur meira að segja gert nóg fyrir nokkra daga. Svo er bara að nota einhverja af uppáhalds pastasósunum ykkar með og þá eru þið næstum því komin til Ítalíu.

800 gr bakaðar kartöflur með hýðinu
200 gr hveiti
1 egg
100 gr rifinn parmesan ostur

Takið kartöflurnar og setjið þær á bökunarplötu með pappír undir og bakið þær heilar. Það er gott að stinga í þær á nokkrum stöðum með gaffli áður en þær eru settar í ofninn. Síðan er bara að baka þær við 180°C í klukkutíma. Þegar þær eru tilbúnar þá er nóg að skera þær í tvennt og þá detta þær úr hýðinu. Setjið þær í skál og stappið þær vel svo að það séu engir kekkir í þeim. Síðan blandið þið saman við þær egginu, hveitinu og ostinum, fyrst með sleif en síðan er bara að láta sig vaða í þetta með höndunum og hnoða vel saman. Ef ykkur finnst það of blautt er alltaf hægt að bæta meira hveiti við.
Þegar þetta er orðið vel hnoðaða saman þá takið þið smá lúkufylli af deiginu og setjið á borðið með hveiti undir og rúllið í langa ræmu sem er svona eins og 3 cm þykk og skerið svo bita sem eru eins og 2 cm að lengd síðan tek ég gaffal og set smá far í hvern bita með honum því mér finnst það bara fallegt en alls ekkert nauðsynlegt að gera það.

gnocchi 2

Svo er að sjóða vatn með miklu salti í nú eða bara 1 grænmetistenging og þegar það er soðið þá lækkið þið aðeins og setjið gnocchi ofan í, þeir sökkva á botninn en um leið og þeir fara að fljóta eru þeir tilbúnir og best er að veiða þá strax upp úr en þetta tekur kannski bara 1 mínútu. Setjið þá annað hvort beint í sósuna sem þið eruð búin að búa til eða setjið fullt af smjör yfir þá ásamt salti, pipar og parmesan og berið fram.

Gnocchi er eitthvað sem þið getið borið fram með hvaða pastasósu sem er og í raun bara uppáhalds sósunni ykkar. Ég gerði svona ítalska tómatsósu eða pommodoro sósu þar sem ég steiki 1 lauk og 2 hvítlauksrif í potti í ólífuolíu og bæti síðan út í það 4 stórum ferskum niðurskornum tómötum og hálfri dós af niðursoðnum tómötum og læt malla í svona 15 mínútur. Krydda síðan vel með salti og pipar og set 1 kjúklingatening út í og ferska smátt skorna basiliku. Svo er bara að smakka til en þessi klikkar aldrei.
Svo má ekki gleyma að hafa fullt af parmesan osti með.