chicken satay

Satay kjúklingasalat með mangó og avókadó

29 January , 2014

Það er alltaf svo gott að gera kjúklingasalat og ég geri það oft og hef í kvöldmatinn ef maður er með hugann við eitthvað létt og gott. Svo er nú bara mismunandi hvað ég set í það hverju sinni, svolítið eftir því hvað er til í ísskápnum hverju sinni.


2 kjúklingabringur
1 poki spínat
1 mangó
1 avókadó
1 krukka fetaostur
3 tómatar
kasjúhnetur
1 krukka satay sósa
smá ólífuolía
salt og pipar
Balsamik síróp (eftir smekk)
1 dl kúskús soðið

Steikið kjúklinginn upp úr uppáhalds kryddinu ykkar nú eða bara með smá salti og pipar og auðvitað einhverju góðu kjúklingakryddi. Þegar kjúklingurinn er gegnum steiktur er gott að hella satay sósunni yfir og láta í malla í nokkrar mínútur, taka svo af hitanum og láta þetta kólna aðeins. Síðan er bara að græja kúskús grjónin samkvæmt leiðbeiningum, en mér finnst alltaf ofsa gott að blanda smá smjöri út í þau þá verða þau svo mjúk og góð, sérstaklega svona spari.
Síðan er bara að skera niður grænmetið og passa upp á að skvetta smá sítrónusafa og salti á avókadóið svo að það verði ekki strax brúnt og ljótt.
Svo er bara að blanda öllu saman í fallega skál og dreifa fetaostinum yfir í lokinn og nota olíuna frá honum ásamt smá balsamik sírópi en ég notaði geggjað balsamik glaze með trufflum frá Nicolas Vahé.