Bacon-wrapped-chicken-V3

Beikonvafðar fylltar kjúklingabringur

24 November , 2015

Þessa uppskrift rakst ég á fyrir löngu síðan en það hefur tekið mig smá tíma að koma mér í að elda hana sem var nú algjör óþarfi því að þetta var bara ótrúlega skemmtilegt að gera og ekki skemmdi fyrir hversu geggjaðar og djúsí kjúklingabringurnar urðu.  Prófið endilega þessa uppskrift, hún er svo bragðmikil og öðruvísi en margt annað sem maður hefur smakkað.

150 gr spínat
200 gr ostur (Tindur er mjög góður í þetta)
4 kjúklingabringur
8 sneiðar af beikoni eða fleiri ef þarf
salt og pipar eftir smekk
300 gr sveppir(ég notaði kantarellu sveppi)
5 msk ólífuolía
2 hvítlauksrif(eða einn góður kínverskur hvítlaukur)
1 ferskur chilli smátt saxaður
2 msk söxuð steinselja
2 msk smjör
1 msk sítrónusafi
3 msk vatn

Forhitið ofninn í 200°C. Setjið spínatið á pönnu og sjóðið það upp úr smá smjöri á pönnunni þangað til það verður dökkgrænt og mjúkt. Rífið ostinn með rifjárni og saxið spínatið niður. Blandið spínatinu og ostinum saman og kryddið með salti og pipar.
Náið ykkur í beittann hníf og skerið gat í miðjar bringurnar en passið upp á að fara ekki alveg í gegnum þær. Sprautið spínat-ostablöndunni inn í bringurnar og lokið fyrir gatið með tannstönglum.
Leggið nokkrar sneiðar af beikoni á bretti og leggið 1 bringu í einu ofan á beikonið og rúllið því utan um þær. Setjið kjúklingabringurnar á pönnu og steikið í stutta stund þannig að beikonið verið aðeins gullinbrúnt. Setjið bringurnar í eldfast mót og eldið í ofninum í 15-20 mínútur eða þangað til að þær eru steiktar í gegn.
Á meðan kjúklingurinn er í ofninum þá er gott að skera sveppina gróft og skellið þeim á heita pönnuna og steikið upp úr olíu og smjöri þangað til þeir verða gullinbrúnir. Þá skellið þið hvítlauknum, chilli og steinselju út í sveppina og hellið sítrónusafanum út á og hrærið vel saman. Kryddið með salti og pipar.
Berið fram kjúklinginn og sveppablönduna saman ásamt kartöflum og góðri sósu. Ég gerði jógúrtsósu með sem ég setti út í smá agúrku, hvítlauk og krydd í eftir smekk.