skonsa

Enskar skonsur

18 March , 2014

Ég einfaldlega bara elska skonsur, sérstaklega svona enskar skonsur með rjómaosti og sultu. Það er bara svo ljúft að fá sér þær annað slagið – skella í nokkrar svona að kvöldi til í miðri viku og fá sér í morgunmat með kaffinu. Þessi uppskrift er alltaf svo góð og skonsurnar verða svo léttar og góðar.

450 gr hveiti
80 gr mjúkt smjör
50 gr sykur
2 egg
5 tsk lyftiduft
250 ml mjólk
1 egg til að bera ofan á skonsurnar

Forhitið ofninn í 220°C. Takið bökunarplötuna og setjið bökunarpappír á hana.
Setjð hveitið í skál og takið smjörið og nuddið út í saman við hveitið þangað til áferðin verður eins og brauðmylsna. Bætið þá sykrinum, lyftiduftinu og egginu saman við með sleif og passið að hræra ekki of mikið. Bætið síðan mjólkinni út í en deigið verður frekar blautt viðkomu.
Hnoðið saman en passið upp á að hnoða ekki lengi og bætið hveiti við svo að það festist ekki við borðið. Rúlluð út með kökukefli þannig að deigið er c.a 2.5 cm að þykkt og skerið þá út litla hringi með glasi eða öðru sem þið eigið til að mynda hring. Raðið á plötuna og burstið smá eggi yfir hverja og eina en passið upp á að eggið leki ekki meðfram köntunum því þá geta þær fallið. Bakið í 15 mínútur.