mamma-eplakaka-v2

Eplakaka með súkkulaði og kókós

24 June , 2016

Þetta er uppskrift sem er alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún er svo afar einföld og góð og er svona eitthvað sem maður getur skellt í ef maður nennir ekki að hafa of mikið fyrir eftirréttinum eða góðri köku með kaffinu. Ég fékk þessa fyrst hjá henni tengdamóður minni og ég féll algjörlega fyrir henni og hef bakað hana milljón sinnum síðan. Það er súkkulaði í henni og hef ég alltaf fengið hana með Toblerone í en upp á síðkastið hef ég gert hana með suðusúkkulaði nú eða suðusúkkulaði með appelsínubragði því að systir mín er með ofnæmi fyrir hnetum og getur því miður ekki borðað hana með Toblerone í svo að þegar þið prófið þessa þá skellið þið bara í hana uppáhalds súkkulaðinu ykkar.

3 egg
100 gr sykur
2 msk hveiti
2 tsk lyftiduft
75 gr kókósmjöl
3 græn epli
1 pera
1 meðalstórt Toblerone eða 150 gr suðusúkkulaði
kanilsykur

Forhitið ofninn í 180°C.
Setjið egg og sykur saman í hrærivélaskál og þeytið þangað til blandan verður létt og ljós. Blandið þá saman við hveitinu og lyftiduftinu og að lokum kókósmjölinu.

Takið eplin og peruna og afhýðið og skerið í litla bita. Setjið í eldfast mót, dreifið súkkulaðinu á milli eplana, dreifið vel af kanilsykri yfir allt þannig að það þekji aðeins og hellið svo deigblöndunni yfir.

Bakið í 30 mínútur. Berið fram með ís eða rjóma og njótið ofsa vel.