Guagamoli2

Guacomole – heimagerð

3 October , 2013

Það er svo gott að gera heimagerða guacomole, svo miklu betra heldur en þessi tilbúna sem fæst í búðunum. Það er líka svo ótrúlega einfalt og fljótlegt að gera hana svo að maður ætti ekki að setja það fyrir sig. Mér finnst avókadó alveg svakalega gott alveg sama með hverju það er og hvað þá þegar það er komið saman með öllum þessum geggjuðu kryddum. Það er líka hægt að borða svona heimalagaða guacomole með næstum því öllu hihihi……..

2 velþroskuð avókadó
1/2 rauðlaukur smátt saxaður
1 rauður chilli smátt saxaður án fræja
1 lúka smátt saxað kóríander ferskt
1 msk lime safi
salt eftir smekk
smá svartur pipar
1 tómatur vel þroskaður

Skerið avókadó í helminga, takið steininn úr og takið kjötið úr með skeið. Setjið í skál og kremjið avókadóið með gaffli en það er fallegt að hafa þetta aðeins gróft. Bætið út í skálina rauðlauknum, chilli, kóríander, lime safa og kryddi. Takið tómatinn og skerið í tvennt og takið kjötið úr honum og skerið hann svo smátt og bætið út í. Látið guacomole standa í smá tíma inni í ísskáp áður en hún er borin fram en passið upp á að setja filmu yfir.

Það er mjög mikilvægt að þið smakkið þetta áður en þið berið það fram svo að bragðið sé nú alveg eins og þið viljið hafa það.

Þið getið auðvitað haft fleiri chilli í uppskriftinni ef þið viljið hafa hana sterka, en passið ykkur vel þegar þið eruð búin að skera chilli því það situr ótrúlega lengi á fingrunum. Gott ráð er að þvo hendurnar fyrst upp úr sítrónusafa og síðan með sápu, þá ætti maður að ná öllu af fingrunum.