kaka-poppyseeds2

Appelsínukaka með birkifræjum

10 November , 2013

Það er svo gaman að baka þessa köku og ekki skemmir fyrir hversu einföld hún er. Það sem mér finnst best við hana og er svona mesta twistið er að hún er með birkifræjum í sem er algjörlega geggjað. Þau smella í munninum á manni þegar maður tyggur og það er alltaf svo ótrúlega mikil upplifun við að borða mat þegar áferðin er svona mismunandi og kemur manni skemmtilega á óvart. Svona er þessi skemmtilega uppskrift.

4 dl hveiti
2 dl sykur
2 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1 dl mjólk
150 gr smjör brætt
2 msk rifinn appelsínubörkur(2 appelsínur)
safi úr 2 appelsínum
4 stór egg
4-5 tsk birkifræ (dökk)

Forhitið ofninn í 180°C.

Setjið allt hráefnið saman í skál og byrjið á því að hræra þetta rólega saman en aukið svo hraðann og hrærið saman á miðlungs hraða í nokkrar mínútur. Takið hringlaga form og smyrjið það að innan, ég nota alltaf PAM sprey því það er svo einfalt og gott, og hellið deiginu í formið og bakið í 45 mínútur eða þangað til að hún er bökuð í gegn þegar þið prófið að stinga í hana með prjón.

Glassúr á kökuna
3 dl flórsykur
1 msk rifinn appelsínubörkur
3 msk safi úr 1 appelsínu
1 tsk birkifræ (dökk)

Blandið öllu hráefninu saman í skál þangað til að verður mjúkt og fallegt, en það má alveg bæta út í smá vatni en þá bara með teskeið ef maður vill hafa þetta þynnra.